Færsluflokkur: Bloggar
9.12.2011 | 17:30
Ánægð með árangurinn
Eins og einhver sagði þá þarf maður að sjá til þess að kunna vel við sjálfan sig. Horfast í augu við sjálfan sig í speglinum og geta sagt ég geri mitt besta. Svo ég tali nú ekki um að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er.
í nokkur ár hef ég verið dugleg að hreyfa mig og inn á milli að taka til í mataræðinu að ég hélt með mis góðum árangri en einhvern vegin ekki náð alveg alla leið þó ég hafi alls ekki alltaf verið of þung en Svona nokkrum mánuðum áður en ég komst í Stjörnuþjálfun voru matarvenjur mínar orðnar slæmar, ég var búin að temja mér það að borða of mikið í einu og þá líka of sjaldan eða þá að ég var maulandi slikkerí allan daginn. Sumir dagar voru þannig hjá mér ef ég byrjaði daginn á sykri að sykur kallaði á meiri sykur og opnaði ég alla skápa aftur og aftur að leita mér af einhverju sætu eins og eitthvað hefði poppað upp þar. Suðursúkkulaði, kökuskarut bara hvað sem var ef það var sætt! Ég var orðin of þung og hrikalega óánægð með sjálfa mig, leið ekki vel, passaði ekki í fötin sem voru í fataskápnum mínum og klæddi mig orðið eins alla daga. Já það voru víðir svartir kjólar og leggings hvort sem það var mánudagur eða laugardagur. Ég kunni ekki lengur vel við mig og ég gerði ekki mitt besta.
12 vikna átakið í stjörnuþjálfun hjá Hreyfingu og smartlandi er lokið. Ég er mjög þakklát að hafa fengið að taka þátt í svona áhrifaríkru námskeiði og frábærri leiðsögn þrátt fyrir kvíðaköst, svita og átök við sjálfa mig að þurfa að koma fram á baðfötum. Ekki var það auðveldara í lokin þrátt fyrir að hafa verið búin að missa rúm 10 kg í millitíðinni. Ég hef ekki séð fyrir og eftir myndirnar og get því verið í kvíðakasti áfram næstu daga! Árangurinn lét ekki á sér standa og þarf ég ekki að vera kvíðin fyrir því, ég náði markmiðum mínum sem ég setti mér fyrir þessar 12 vikur og þarf ég ekki að vera kvíðin fyrir því, mér líður alveg ofsalega vel og er ótrúlega ánægð með árangur minn. Ég er ekki komin alla leið og hef gert mér önnur markmið, viðkvæmasta svæðið mitt er maginn og er hann annsi slappur blessaður og var það mjög erfitt að koma fram á baðfötum en eins og ein sagði við mig, vertu róleg þú ert komin á fimmtugsaldur, búin að ganga með börn þú ert ekki tvítug og hættu þessum kvíða það getur bara ekki annað verið en það verði einhver munur á myndunum!!!!
Ég dró fram þröngar gallabuxur sem eru búnar að vera ónotaðat í fataskápnum mínum í einhver ár og er farin að ganga í þeim, búin að kaupa mér kjól sem er hvorki víður né svartur. Þvílíkt frelsi að þurfa ekki að fela sig í víðum svörtum kjólum alla daga já mér finnst ég frelsuð, fór í þröngum gallabuxum og peysu sem náði ekki niður fyrir rass og var víð nei hún var stutt og þröng! Ég get vel horfst í augu við sjálfa mig í speglinum núna og sagt ég geri mitt besta.
Nú er vika liðin síðan átakinu lauk og stend ég ein og sjálf í sjálfum desembermánuði af öllum mánuðum ársins og er bara ánægð með mig. Á þessari viku er ég búin að fara í afmæli, út að borða og hvert sem ég kem er mér boðið upp á konfekt og smákökur. Er sjálf að fara að búa til konfektið sem ég og börnin gerum á hverju ári og byrjuð að plana matinn fyrir jólin en allt er gott í hófi og er ég búin að lofa sjálfri mér því að detta ekki í einhverja vitleysu þó svo það séu jól, á mínum borðum núna eru fullar skálar af mandarínum og eplum. Ákvað að skella mér á vigtina svona viku eftir átakið og hræddist ég það að viktin hefði nú eðlilega farið eitthvað upp jú það er nú desember! Nei nei ekkert svoleiðis í gangi og var ég nákvæmlega það sama og fyrir viku síðan.
Hér koma tölurnar mínar: 10,4 kg fóru - fituprósentan lækkaði um 8,6% og missti ég 37 cm í heildina:) Takk fyrir mig Anna Eiríks þjálfari, Marta María, Hreyfing og að sjálfsögðu stelpurnar sem voru með mér. Ég er glöð og ánægð með árangur minn á þessum 12 vikum og er ég ekki hætt ég er rétt að byrja:) Það sem skiptir mestu máli er að manni líði vel og manni líður vel ef maður hreyfir sig reglulega og hugsar um að borða hollt og gott að öllu jöfnu þó svo maður fái sér nú stundum smá slikkerí:) Ég mæli hiklaust með námskeiðinu Stjörnuþjálfun í Hreyfingu.
Kveðja Guðrún Björg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2011 | 17:24
Allir eiga skilið dekur
Það er margt sem ég hef verið að gera síðustu 11 vikur sem ég hef ekki gert áður og eitt af því er að ég fór í dekur hjá Bláa lóninu.
Ég hef aldrei verið dugleg að dekra við mig og skrokkinn minn því miður og ég komin á þennan aldur hvað er það að sinna ekki líkama og sál Guðrún? Eftir þetta mun það svo sannarlega breytast.
Bláa lónið bauð okkur skvísunum í Stjörnuþjálfun í þvílíkt dekur, upplifun og notalegheit. Þessu gæti ég svo sannarlega vanist. Mótökurnar voru alveg frábærar og meðhöndlunin ekki af verri endanum mér leið eins og stjörnu í stjörnuformi!!!! Við fengum allar sér herbergi með sturtu og öllum græjum, húðgreiningu, veitingar og það sem toppaði allt saman var klukkutíma skrúbb á allan líkaman og nudd út í lóninu. Váááá við láum á dýnu með teppi ofaná okkur út í lóninu og flutum um á meðan það var verið að nudda okkur þvílík sæla.
Allir eiga skilið gott dekur og mæli ég með dekri í Bláa lóninu þetta er svo nærandi fyrir sál og líkama. Hvað er meira nærandi svona í skammdeginu og svo líður manni svo vel á eftir, mér fannst ég bara yngjast um nokkur ár og húðin á mér já húðin var svo mjúk og dásamleg bara eins og á barni:) í lokin vorum við leystar út með Blue lagoon vörum, skrúbb,augnkrem,serium,dagkrem og hreynsivörum ég er byrjuð að nota vörurnar og ég hlakka til að sjá og finna þegar kremin eru farin að virka því ég er með mjög viðkvæma húð og er alltaf með bólur og mikill litamunur er á húðinni og hef ég alltaf verið í hálfgerðum vandræðum að finna mér eina rétta kremið. Þessi krem fékk ég eftir húðgreiningu og hef því mikla trú á því að núna sé ég komin með réttu vörurnar sem henta mér.
Nú mun ég næra mína sál og líkama reglulega og láta eftir mér dekur annað slagið eins og allir ættu að gera. Það eru að koma jól og svo á ég bráðum afmæli ekki þætti mér slæmt að fá eitthvað dekur í pakkann minn. Fljótlega mun ég panta mér andlitsbað eða eitthvað nærandi fyrir mig því þá líður manni svo vel:)
Kveðja Guðrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2011 | 22:13
Já ég get þetta eins og allir aðrir!
Það er betra að spyrja til vegar en að villast eins og einhver sagði. Já ég get sagt að með því að vera á námskeiðinu Stjörnuþjálfun í Hreyfingu hafi mér verið vísað rétta leið áður en ég villtist lengra!!!!!!
Í upphafi átaks setti ég mér markmið fyrir þessar 12 vikur og svei mér þá ef ég er ekki búin að ná FLESTUM og samt rúmar 2 vikur eftir af átakinu frábæra. Árangurinn lætur ekki á sér standa og horfi ég á tölurnar á blaðinu aftur og aftur alveg UNDRANDI en vigtin, málbandið og fituprósentan segir satt er það ekki? Jú örugglega....
Þetta er bara snilld og ekki stendur á mér að setja mér ný markmið en stæðsta markmiðið mitt var þegar ég byrjaði var að vera í mínu besta FORMI 43 ára!!! Það eru 26 dagar í það og er ég spennt að vita hvort það takist en ég var/er ekki að tala um KÍLÓIN því ég á nú alveg nokkur auka eftir heldur FORM. Því auðvitað hef ég verið ung og LÉTT en ekki í formi. Þetta eru stór orð og stór markmið en miðað við árangur minn í GETU, STYRKLEIKA og ÞOLI á þessum tæpum 10 vikum þá hef ég trú á mér:)
Ég veit alveg hvað verður efst á óskalistanum mínum fyrir þessi jól....Klárlega verður það námskeið í Stjörnuþjálfun eftir áramót. Hér með er ég búin að koma því á framfæri hvað mig langar í jólapakkann minn þessi jól svo það ætti ekki að vera neinn höfuðverkur fyrir ykkur sem langar svo mikið að gefa mér góða jólagjöf:))))))
Nú er bara að halda áfram og svei mér þá ef ég gæti ekki bara gert þetta að áhugamáli. Ekki væri amalegt að áhugamálið væri eigin heilsa og vellíðan. Vááá mér finnst gaman að taka á því jiiiii er ég að skrifa þetta orð og ég er farin að hafa trú á mér, ég get þetta, HEPPIN ég þessu hefði ég aldrei trúað, TRÚIÐ mér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2011 | 17:49
Mataræði
" Seinagangur víkur úr vegi þegar þú vinnur markvisst að settu marki. Með hverju skrefi sem þú tekur í þá átt fyllist þú nýjum krafti og atorku og nærð leikandi takmarki þínu" Já og þetta er svo SATT trúið mér:)
Margir hafa verið að spyrja mig að því hvað það er sem ég er að borða. Ertu á sérfæði? Borðar þú ekki kolvetni? Sleppir þú öllu hveit, sykri,geri og mjólkurvörum? Ég veit að þú ert að hreyfa þig mikið og ert ekki að svelta þig en hvað borðar þú?
Svar mitt við þessu er að ég borða nánast allt. Eina sem ég hef alveg sleppt að borða og sakna ekki í þessar 7 vikur er nammi, snakk og feitar rjómasósur. Ég hugsa mikið um hollustu og reyni að borða mikið af hollum mat og það sem er ekki mjög hollt borða ég í lágmarki. Dæmi: Ég borðaði alltaf hvít hrísgrjón núna borða ég eingöngu brún hrísgrjón eða híðishrísgrjón, heilhveiti spaghettí, spínatplötur í lasagnað, eingöngu gróft brauð þá er sólkjarnabrauð í miklu uppáhaldi hjá mér, ef ég fæ mér ost ofan á brauð þá er hann aldrei feitari en 17% ef ég fæ mér sultu þá er hún sykurlaus. Ef ég fæ mér hamborgara þá geri ég hann sjálf úr 100% fitulitlu nautahakki, nota eina t.d. sólkjarna brauðsneið með kotasælu, helling af grænmeti og svo hammarann þar ofan á ummmm og stundum spæli ég mér eitt egg ef ég vil fá mér delux hammara svona til að gera vel við mig á sunnudegi!! Á meðan ég er að losna við aukakílóin þá borða ég 1.500 hitaeiningar á dag. Ég borða 5 sinnum á dag og þetta snýst að sjálfsögðu um hinn gullna meðalveg og passa upp á skammtastærðir. Svona geri ég þetta og tel ég þetta bara vera skynsamleg lífstílsbreyting sem endist:)
Svona var dagurinn hjá mér í gær:
kl. 7:00 Grænn drykkur
kl. 9:00 Hafragrautur með léttmjólk, rúsínum og lýsi
kl. 12:00 Fiskur í ofni með smá sósu og helling af blönduðu grænmeti
kl: 15:00 Banani
kl. 19:00 Borðaði kúfullan disk af dásamlegum kjúklingarétti á Krúsku með helling af grænmeti, chia fræum og ég veit ekki hverju.
í dag:
kl. 7:00 Létt ab-mjólk með bláberjum og hveitiklíð
kl. 10:00 voru veitingar í boði í vinnunni og valdi ég mér það holla eins og melónu, peru, gulrætur og chía- skúffuköku sem var rosa góð og er uppskriftin inni á Smartlandi Mörtu Maríu undir næring og heilsa.
kl. 12:00 Ein tortilla pönnukaka með taco sósu, hellig af grænmeti og nautahakki
kl. 15:00 Ein ferna af Hleðslu og er ég ekki búin að ákveða hvað ég ætla að fá mér í kvöldmat.
Sennilega verður kjúklingur fyrir valinu með soðnu grænmeti og sætri kartöflu eða ég skelli í grænmetislasagna sem er svoooooo gott. Á morgun er ég með bröns fyrir fjölskylduna og mun ég að sjálfsögðu velja mér það holla, gróft brauð kannski smá eggjaköku en ætla að sleppa Amerískum pönnukökum með sírópi. Vonandi svarar þetta einhverju um mataræðið mitt:)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2011 | 20:51
Ræktin að verða ómissandi rútína.
Þetta er ekkert vandamál því vandamál eru aðeins tækifæri í vinnufötum!!!!!!!!!
Vá hvað ég er glöð og ég ætla að segja ykkur af hverju ég er svona glöð:) Það er nú bara einfaldlega þannig að Stjörnuþjálfunarnámskeiðið í Hreyfingu er algjörlega fyrsta skrefið að bættum lífstíl hjá mér. Nú ætla ég að útskýra hvers vegna og af hverju. Ég er ekki í megrun og ekki á megrunarkúr sem ég hætti svo í/á þegar þessum 12 vikum er lokið NEI þannig er það ekki. Það er ekkert sem ég er að neita mér um núna sem ég ætla svo að fá mér eftir 12 vikur, ég er ekki að hætta einhverju núna í þessar 12 vikur sem ég ætla mér ekki að hætta í framhaldi því það getur varla boðað gott t.d. með kílóin. Með breyttum lífstíl eins og að mæta í ræktina sem er orðið að dásamlegri rútínu, hugsa um að borða hollt, borða reglulega eða 5 sinnum á dag er alveg að gera sig. Ég komst ekki í ræktina alla síðustu viku og var stödd erlendis í 4 daga af vikunni og ég var ótrúlega áhyggjufull yfir ferðinni áður en ég fór en auðvitað labbaði ég mjög mikið á hverjum degi og passaði upp á mataræðið. Ég var mikið úti að borða og lenti tvisvar í þeim aðstæðum að geta ekki valið matinn minn sjálf, ég tók bara það óhollasta af disknum frá, fékk mér samloku með kjúkling og salat og í því var beikon sem ég tók bara frá, bað þjónana á veitingastöðunum um að skipta frönskunum út fyrir salat með matum og DANSAÐI eitt kvöld:)
Ég segi það satt að ég hlakkaði svo til að komast í ræktina eftir að ég kom heim þrátt fyrir 2 tíma svefn og eftir 8 tíma vinnudag. Fyrir stuttu hefði ég nú beilað því ég var svo þreytt en NEI ég gat ekki beðið ég þarf greinilega ekki að segja neitt meira um það að þetta er að verða að rútinu sem ég hef aldrei náð áður. Mér líður svo vel og ekki bætti ég grammi á mig eftir ferðina NEI ekki grammi, sennilega hefur dansinn bjargað því hehe. Við erum rúmlega hálfnaðar og hef ég bætt getu mína, þol, úthald svo ég tali nú ekki um hversu vel mér líður. Í upphafi snérist þetta um að losna við kíló en það er allt í einu ekki aðal málið hjá mér lengur þegar ég finn hvað þetta er að gera mér gott, ég hef tapað 5,5 kg sem ég er mjög ánægð með og þarf að sjálfsögðu að missa meira því ég er of þung en ég er ekki svo upptekin af því núna. Núna er ég upptekin af því að bæta mig, komast í betra form, styrkja mig og að sjálfsögðu að komast í kjörþyngd með því að halda áfram að hreyfa mig, hafa gaman að og borða hollt:)
Dansa af gleði!!!! Kv. Guðrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2011 | 17:47
Kátína!!
Ég er svo kát já svo kát yfir því hversu vel gengur.
Við stöllurnar vorum að fá íþróttafatnað frá Reebok og hlakka ég mikið til að byrja að nota fatnaðinn og skóna. Ég er svo kát mig vantaði föt í ræktina og ekki skemmir það að fötin eru svo flott og klæðileg.
Ég er að fara erlendis í námsferð og ég er búin að vera frekar kvíðin yfir því að missa af tímum í ræktinni, missa af öllum stuðningnum, fræðslunni, aðhaldi og vigtun. Svo til að kóróna allt saman að þá nældi ég mér í einhvern óþvera sem varð til þess að ég komst ekki í ræktina í gær, gat ekki skokkað 7 km í dag og missti af vigtun í gær:( Ég mun svo mæta aftur í rætina eftir viku (shjúkket) í vigtun lítið sofin og með bjúg því ég fæ alltaf bjúg eftir flug.....Það er ekki mikil kátína yfir því!
Þegar ég mátaði fínu fötin frá Reebok þá varð ég aftur kát....Auðvitað fer ég í þessu út og þramma um allt í TRAINTONE skóm, EASYTONE buxum sem halda vel við rass og læri, EASYTONE Topp sem er með böndum og gefur mótstöðu við hreyfingu:)
Ég er svo kát að vera að fara erlendis í námsferð og má því ekki skemma það fyrir mér með kvíða yfir því að komast ekki í ræktina því auðvitað mun ég labba mjög mikið (í Traintone skóm) og sennilega fæst hollur matur í London, væntanlega kemst ég á hlaupabretti einu sinni eða tvisvar í ferðinni svo þetta ætti bara að ganga upp hjá mér:) Ætla bara að halda áfram að missa mig í kátínu og mun alls ekki missa mig í hreyfingaleysi og óhollustu. Hver veit nema ég missi mig pínu í verslun og verð væntanlega mjög kát yfir því!!!
Kv. Guðrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2011 | 22:25
Hreyfing bætir ekki bara heilsuna hún gerir mann ánægðan með sjálfan sig!
SNILLD!!!
Já þetta er tær snilld. Fyrsta námskeiðið búið (4. vikur) og annað byrjað. Á ég eitthvað að tala um það? JÁ ég ætla að tala um það. Ég hef mist 4.500gr vá hvað þetta hljómar vel ok 4. 1/2 kg og slatti af sentimetrum foknir.....Jebb 10 cm farnir um mittið 4 cm um mjaðmirnar, 3 cm um lærin og 1cm um handlegg og ekki má gleyma því að fituprósentan hefur lækkað um 3 prósent, ekki slæmt.
Góðir hlutir gerast hægt og festast þá í sessi sagði einhver vitur maður! Ég held að þessir góðu hlutir hafi ALDREI gerst svona HRATT hjá mér áður enda er ég ótrúlega dugleg að æfa og borða hollt. Ég get talað áfram um þetta en það má ekki gleyma sér í gleðivímunni, nú er bara að spíta í lófana og halda áfram. Þessi árangur hvetur mig enn meira áfram til að ná loka markmiði mínu sem er að vera í mínu besta formi 43 ára þó tölvert sé í það að þá er þetta skemmtileg ögrun sem mér finnst byrja vel VÚHÚ...
Ég tel mig sýna unglingunum mínum gott fordæmi með árangri mínum á svona stuttum tíma með hollu mataræði og mikilli hreyfingu í Hreyfingu hehe
Montkveðja Guðrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2011 | 19:12
Fram úr mínum björtustu vonum
Þetta námskeið fer fram úr mínum björtustu vonum get ég sagt ykkur.
Fjórða vikan er hafin og er ég búin að missa 4 kg. Auðvitað snýst þetta um bætta heilsu og betri líðan en þar sem ég er of þung þá er ég ótrúlega glöð að kílóin skulu fjúka af mér og heil 4 kg á ekki lengri tíma en þetta. Kosturinn við þetta allt saman er hversu einfalt þetta í rauninni er, mataræðið hefur gjörbreyst hjá mér, matarvenjur líka og borða ég 5 sinnum á dag holla og fjölbreytta fæðu. Einnig æfi ég 5 sinnum í viku og eru það mjög svo fjölbreyttar æfingar og stefni ég á það að bæta sjöttu æfingunni við þessa vikuna með því að skella mér upp á Úlfarsfellið og hef ég bara gaman af því en vonandi nennir einhver með mér!!! Eins og áður hefur komið fram að þá líður mér mjög vel og ég finn mikinn mun á mér svo finnst mér þetta námskeið bara svo skemmtilegt að ég gef mig alla í þetta bæði með mataræðið og æfingarnar. Það er klárt mál að þetta er lífstíll til framtíðar en ekki bara 12 vikna átak og svo búið spil.
AÐ FINNA FYRIR AUKNUM STYRK, AUKINNI ORKU OG BETRI LÍÐAN er dásamleg tilfinning:)
Ég hlakka svo til að fara í mælingar í lok vikunnar og vonast ég að sjálfsögðu til að fituprósentan hafi minkað og einhverjir sentimetrar fokið.......
Ég held glöð áfram. Eigið glaða, orkuríka og holla viku öll sömul:)))
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2011 | 19:56
Sunnudagar geta verið pínu erfiðir
Núna er vika fjögur að hefjast á námskeiðinu Stjörnuform í Hreyfingu og síðasta vikan á þessu námskeiði en svo byrjar nýttt námskeið eftir þetta. Við fengum matseðil til að fara eftir þessa viku já Hollywood seðil og áttum við að byrja á honum í dag svo við næðum 6 dögum. Ég klikkaði á því að skipuleggja mig og versla inn í gær til að undirbúa mig fyrir daginn í dag og ætla því að byrja á Hollywood seðlinum á morgun, kannski var þetta viljandi gert því sunnudagsmaturinn á heimilinu er svo góður!!! Ef einhverjir dagar geta verið erfiðir þá eru það helst sunnudagar því maður er ekkert annað en vaninn og vaninn hjá mér var að gera VEL við mig á sunnudögum. Það er nefnilega alveg merkilegt að þegar maður ætlar að gera vel við sig þá tengist það alltaf mat allavega í mínu tilfelli MAT og NAMMI þess vegna hef ég gaman af því að segja ykkur að ég hef ekki borðað neitt nammi síðan ég byrjaði á þessu námskeiði. Einnig hef ég bara staðið mig vel í mataræðinu þrátt fyrir aldrei fleiri veislur eins og á þessum þremur vikum. Þrátt fyrir að sunnudagar geti stundum verið pínu erfiðir þá gengur þetta svo vel og minn vani verður ekki að gúffa á sunnudögum.
Mér líður vel og finn mun á mér á ekki lengri tíma en þetta. Að borða 5 sinnum á dag holla og fjölbreytta fæðu ásamt því að æfa svona fjölbreytt fer alveg ofsalega vel í mig og hverjum hefði dottið það í hug að mér þætti svona gaman í ræktinni, það gerir fjölbreytnin. Heilbrigð sál í hraustum líkama er engin klisja hreyfing og hollt mataræði bætir ekki bara heilsuna heldur gerir mann ánægðari með sjálfan sig þannig upplifi ég mig eftir þessar 3 vikur. Sykurlöngun er lítil sem engin og svei mér þá ef ég sé ekki farin að finna fyrir aukinni orku og 3 kíló er svo dásamlegur bónus:)
Vá hvað ég hlakka til eftir 9 vikur að uppskera þar sem ég er nú þegar farin að uppskera, þetta er byrjun á góðum lífstíl sem ég er byrjuð að tileinka mér. Þá fer þessum sunnudegi senn að ljúka þar sem ég missti mig ekki í neitt gúff og mér líður vel.
Þegar öllu er á botnin hvolft þá snýst þetta allt um BÆTTA HEILSU OG BETRI LÍÐAN og þetta virkar trúið mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2011 | 21:32
Allt að gerast og líf fyrir utan Mosó!
Einbeitum okkur að því sem við getum gert í dag þó við gerðum lítið í gær:)
Nú er vika 3 í Stjörnuþjálfun hálfnuð og allt að gerast. Mér er farið að líða betur, finnst tímarnir á námskeiðinu svo skemmtilegir og fjölbreyttir að ég fer glöð í hvern tíma og þvílíkt ánægð út úr þeim. Missti af tíma á mánudaginn og var bara alveg ómuguleg yfir því. Ég er farin að finna aðeins mun á mér og haldið ykkur fast.......Hef misst 2 og 1/2 kg, ekki skemmir það.
Ég á heima í Mosfellsbæ, vinn í Mosfellsbæ, maðurinn minn fæddur og uppalinn í Mosfellsbæ, börnin mín í gagnfræða og framhaldsskóla í Mosfellsbæ og næstum öll tengdafjölskyldan mín á heima í Mosfellsbæ. En það er víst líf fyrir utan Mosfellsbæ, þarna fyrir sunnan!!! Já ég komst að því þegar ég byrjaði að fara suður til Reykjavíkur 4 sinnum í viku í Hreyfingu á þetta FRÁBÆRA námskeið. Við stöllurnar skruppum svo saman eftir æfingu í síðustu viku á Krúsku að fá okkur að borða. Krúska á suðurlandsbraut og auðvitað vissi ég ekkert hvar það var og hafði aldrei komið þangað en núna veit ég það og mun svo sannarlega fara þangað aftur. Á boðstólnum er eingöngu lífrænt hráefni og ekkert hvítt hveiti, mikið úrval af grænmetis og kjúklingaréttum og fekk ég mér ofboðslega gott lúxussalat með kjúkling ummmm. Á námskeiðinu stjörnuþjálfun er innifalið dekur í Blue lagoon spa í Hreyfingu og auðvitað hafði ég aldrei komið þangað áður en ég er búin að fara þangað núna og þvílík dásemd. Aha bara búin að vera í tvær og hálfa viku, allt að gerast og bara alltaf fyrir sunnan á nýjum stöðum.
Ég held glöð áfram því við berum ábyrgð á eigin heilsu.
Kveðja frá ánægðri sveitakonu!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Björg Pálsdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar